Friday, December 28, 2007

Nýtt ár að nálgast

Þá er síðasti vinnudagurinn á árinu kominn. Mér finnst árið hafa þotið áfram og svo margt búið að gerast. Ég hætti hjá Icelandair og fór til Gutenbergs, brúðkaupið hennar Rósu í Egyptalandi sem við Ingó fórum í ásamt frábærum hópi manna og kvenna, nú fermingin hennar Ástu minnar, pabbi varð 80 ára, Margrét og Friðrik fermd, Láki frændi 70 ára, Kristín og Siggi giftu sig, Ingigerður varð 30 ára og við Ingó fórum með henni og Sigtryggi til Amsterdam á Police tónleika sem við gleymum seint og svo mætti lengi telja. Kannski verður maður meirari með aldrinum en maður hættir að taka öllu sem gefnum hlut og fer að læra að njóta þess sem maður hefur. Ég held að ég verði að teljast með heppnari manneskum í þessum heimi. Ég á yndislegan mann og yndisleg börn og fjölskyldan mín er það dýrmætasta í þessum heimi. Við eigum þak yfir höfuðið og raunverulega allt til alls. Ég á bestu stórfjölskyldu í heiminum sem stendur við bakið á mér sama hvað á gengur og ég á ógrynni af bestu vinum sem segja mér endalaust hvað ég er þeim mikils virði. Hvað getur maður beðið um meira? Ég þakka ykkur öllum fyrir að vera í lífi mínu og gera það þess virði að lifa því og ég hlakka til að eyða tíma með ykkur á árinu 2008.

Linda mín kíkti inn hjá mér í gær og stoppaði í um klst. Ég hef lítið getað hitt hana síðan hún kom heim þar sem mér tókst að drekkja mér í jólaundirbúningi og öðru stressi tengdu jólum. Það var frábært að hitta hana og við áttum mjög skemmtilegt og áhugavert spjall í gær. Vona að ég nái að hitta hana og Ása mun meira í janúar en núna í des. Krakkarnir fóru í bíó með Auði og Björk og við Ingó fórum í mat til Ingigerðar og Sigtryggs. Þó voru það ekki þau sem buðu heldur Yuki sem eldaði japansk curry handa okkur. Það var alveg rosalega gott ummm takk fyrir okkur. Einar Haruka er rétt 2ja ára gamall og hann er ekkert smá sætur bablandi smá íslensku og svo japönsku í bland. Árni bróðir Ingigerðar var þarna líka og það var rosa gaman að hitta þau öll. Svo eftir bíó komu Ásta, Auður og Guðný til okkar og þá fékk Einar nú alla athyglina sem hann vildi fá og lét þær stelpur snúast um sig. Gaman að vera í góðra vina hópi.

Planið er að fara norður á morgun reyndar er mamma með einhverjar hjartsláttartruflanir svo ég er að bíða eftir að fá að vita meira um það, kemur allt í ljós seinna í dag.

Annars held ég að við séum bara að loka snemma hér í dag og drífa okkur inn í helgina.

Thursday, December 27, 2007

Gleðileg jól

Gleðileg jól elskurnar mínar. Þakka fyrir allar hlýjar kveðjur sem ég og fjölskylda mín fékk um jólin og eins alla pakkana sem okkur bárust. Ég er búin að vera svo á haus í desember að ég hef ekki gefið mér tíma í að blogga og verð að fara að bæta úr þessu. Við tókum fullt af myndum á aðfangadag og kannski ég komi mér í að setja þær inn í kvöld. En svona smá upprifjun á því sem er búið að vera að gerast. Á föstudaginn 21 skrapp ég í hádeginu í lunch með Ingigerði og Vigdísi á Vegamót. Mér til mikillar ánægju mætti Yuki mágkona Ingigerðar með Einar litla með sér. Hann er nýlega orðin 2ja ára og mesta krútt í heimi. Hann skilur alla íslensku þó svo hann tali bara japönsku alveg rosalega sætur krakki. Nú við hættum öll kl 2 í vinnunni og lokuðum búllunni sem var dásamlegt. Ég fór því næst á Kringluflakk með Ástu og er búin að fá nett nóg af verslunarmiðstöðvum eftir þessa jólatörn. Ég hringdi svo í Himma vin okkar sem við því miður höfum alltof lítið samband við og undan farin ár hefur það bara verið á aðfangadag í kringum miðnætti sem hann hefur komið og kíkt á okkur. Í fyrra klikkaði það hann kom ekki og það var bara hræðilegt svo ég hrindi í hann til að vera viss um að hann kæmi og mikið var gaman að heyra í honum. Nú um kvöldið var afmæli tengdó og við Ingó mættum með krakkana þangað um hálf 9. Þar var mætt allt sama liðið og kemur venjulega og þetta var voðalega huggulegt. Hún fékk fullt af gjöfum og var bara alsæl með þetta allt. Elín Hjörleifs frænka hennar gaf krökkunum okkar eitthvað stríðnisdót sem hitti vel í mark hehe... Nú svo var Ingó að spila á Players og ég fór með honum þangað. Það var bara fínt Unnur hans Kidda kom þangað og við dönsuðum aðeins, bandið var gott og það var gaman að horfa á manninn minn spila.

Nú á laugardaginn sváfum við svo bara út og svo var jólastúss og um kvöldið skreyttum við tréið sem var ótrúlega fallegt hjá okkur. Á þorláksmessu keyrði ég Ástu til Eddu Láru frænku sinnar sem kom frá London kvöldið áður. Stoppaði aðeins og kjaftaði við Gyðu mömmu hennar en fór svo heim því Ingó var að spila hjá Sævari Karli milli 3 og 5 með Softones. Ég keyrði hann þangað enda ekki séns að fá stæði í bænum á þessum degi. Svo fór ég á ótrúlegt jólastúss og keypti og kláraði bara sem ég gat fyrir jólin. Sótti svo Ingó rúmlega 5 og við fórum heim og hann komst í ham við að laga til. Planið var að hitta Ingigerði ásamt Sigtryggi, Árna bróður hennar og Yuki niðri í bæ um kvöldið en svo vildi Ingó bara vera heima að tala til svo ég fór í Kringluna að klára að versla. Ásta fór í boð til Stefáns föðurbróður síns sem tók óvænta U-beygju þegar Stefán og Rebekka giftu sig. Ég kláraði að kaupa og fór þvínæst til Sellu og sótti leyfar af tertum eftir afmælið, sótti svo Ástu og fór svo til Lindu sem var með eina gjöf fyrir mig handa Guðnýju sem keypt var úti. Við Ásta stoppuðum um stund þar og það var voða huggulegt þau hjónin bara farin að bíða eftir jólunum. Þegar heim kom var Ingó búin að taka mikið til og við áttum góða stund saman fram eftir nóttu.

Aðfangadagur rann upp ljúfur og fagur og ég upp í Kringlu þar sem ég hafði fattað kvöldið áður að afgreiðslustúlkan í Kiss hafði gleymt að láta eitt af því sem ég keypti í pokann hjá mér. Ég brunaði uppeftir og fékk þetta og svo strax heim. Arndís kom stuttu seinna og náði í jólakortið sitt kíkti í 2 mín með Birnu Rún var á leið til mömmu sinnar. Sella kíkti inn ekki leist henni á draslið í stofunni hjá mér en það var sko allt horfið þegar hún mætti um kvöldið. Ég henti kalkúninum í ofninn og undirbjó hitt og þetta og við Ingó vorum á fullu að tala til og gera fínt. Um 3 leytið fór ég og hitti Erin og náði í ipodinn sem Nicholas kom með frá NYC fyrr um morgunin. Diddi kíkti þangað líka og ég náði að smella á Stínu frænku jólakossi áður en ég fór. Því næst fór ég á Grenimel og náði í pakkana frá Áslaugu systur og hitti Sigyn mágkonu og Eirík hinir í baði eða að taka sig til. Kvöldið var alveg yndislegt hjá okkur, maturinn góður þó ég segi sjálf frá og bara allt svo hátíðlegt og yndislegt. Ingigerður kíkti inn rétt áður en við fórum að borða hún var að koma úr messu og náði í pakkana sína áður en hún fór út í Garðabæ til mömmu sinnar og pabba gaman að sjá hana rétt aðeins. Krakkarnir voru svo góð og skemmtilegt þetta kvöld og allir fengu fullt af flottum pökkum. Ég fékk hálsmen, eyrnalokka og armband frá Ingó ásamt silfurlituðum kjól með belti og bókina Þúsund bjartar sólir. Ég gaf honum gallabuxur og skyrtu, Hugo Boss rakspíra og hring. Þar að auki fengum við helling af gjöfum og þökkum kærlega fyrir það. Ég tek nú kannski myndir af þessu við tækifæri og set á bloggið. Hann Himmi okkar mætti svo rétt um hálf 12 og mikið var nú gaman að hitta hann aftur eftir 2ja ára aðskilnað. En nú bætum við úr því því við Ingó ætlum að vera rosalega dugleg að hitta vini okkar á nýju ári er það ekki Ingó :-). Hann sat hjá okkur fram undir hálf 2 og ég kom krökkunum í rúmið. Þegar hann var farinn vorum við Ingó enn í góðum gír og settum 2 ein niður í stofu og nutum þess að vera í friði og ró. Ingó fór svo að spila fyrir mig á ipodinum fullt af lögum sem honum finnast flott og þegar varð hinn besti endir á yndislegu kvöldi.

Á jóladag var sko sofið út held að klukkan hafi verið um hálf 2 þegar við fórum á fætur. Við Ingó drifum í að þvo upp og krakkarnir fóru að skoða dótið sitt. Svo voru borðaðar leyfar og bara haft það gott. Veðrið var frekar leiðinlegt hríðaði og skyggni lélegt. Ég keyrði Ástu í sitt árlega jólaboð með föðurfjölskyldunni og fór svo og sótti Erin og fjölskyldu og við fórum öll til Þorgerðar sem fagnaði 36 ára afmæli sínu þennan dag. Þar var ósköp kósý eins og venjulega enda orðinn árviss viðburðu að mæta til hennar á þessum degi. Ég var svo komin heim um 7 leytið og þær Ásta og Edda Lára þá líka komnar og við fórum því næst öll til tengdó í hangikjöt. Sátum þar frameftir og horfðum á tv og svo heim með liðið. Við Ingó fórum að horfa á Bridget Jones og borða konfekt nóg af því um jólin hehe...

Í gær komu svo Maddý, Einar, Þorgerður og hennar lið í kalkúnaleyfar. Þetta er orðin árviss hefð hjá okkur og var alveg rosalega kósý. Svo kom Malla í kaffi með strákana og Ássý frænka kíkti líka og dagurinn var bara mjög góður. Ásta gisti hjá Heiði í nótt og þau litlu fóru til tengdó svo við hjúin fengum að vera ein tvö í friði. Skelltum okkur í bíó á The Golden Compass kl 8. Skemmtileg ævintýramynd og fínt að fá að vera bara tvö saman. Þegar myndin var búin fórum við heim til Ingigerðar og Sigtrygg og kjöftuðum fram undir kl 1. Lubbi ekkert smá glaður að sjá okkur og frekar sorgmæddur þegar við fórum heim.

Ég er svo mætt til vinnu í dag eitthvað er nú frekar rólegt og jafnvel verið að tala um að loka kl 2 á morgun ég vona að svo verði. Rauði bíllinn okkar er eitthvað bilaður ég keyrði hann hingað í morgun og það var eins og hann væri í handbremsu allan tímann og svo þegar ég ætlaði heim með hann um kl 9 til að Ingó gæti notað hann þá bara gekk það ekki og hann er fastur hér á stæði fyrir utan. En við erum komin á annan bíl líka Opel Zafira 7 manna fengum hann á rosa góðu verði 375þ árgerð 2000 rosa vel með farinn og ætlum að koma honum á vetrardekk á eftir. Væri til í að vera heima í dag en tek líklega 2 daga í frí í næstu viku. Langar að eiga aðeins meiri tíma með fjölskyldunni. Set svo myndir inn vonandi í dag þangað til hafið það sem allra best.

Wednesday, December 19, 2007

jólin að koma

Jæja nett jólastress búið að vera í gangi síðustu daga. Kannski afþví að ég var ekki búin að gera allt á þeim tíma sem ég ætlaði mér. Hugsa alltaf nú verð ég snemma í því en það gerist bara ekki hummm... Nú hvað er helst að frétta jú í dag loksins eftir að vera gengin rúmlega viku framyfir eignaðist hún Svanhildur mágkona mín og hann Sigurður bróðir minn son. Hann var rúmlega 4000g og 53cm og ég sendi þeim mínar bestu kveðjur og hlakka til að fá myndir.

Nú Ingigerður og Sigtryggur komu í mat um síðustu helgi og við spiluðum ásamt þeim Guðnýju og Ástu nýja Party og co spilið það var meiriháttar gaman. Svo vorum við Ingigerður og Ásta í sörubakstri á laugardaginn og skemmtum okkur vel. Ingigerður gerði meira að segja jólaís handa okkur svo nú erum við vel undirbúnar. Á sunnudaginn keypti ég allar gjafir sem áttu að fara norður og það var maraþondagur ekki gaman í roki og rigningu. Nú svo er Ásta búin að vera í prófum svo einhver tími hefur nú farið í það. Svo kom Erin með krakkana á laugardaginn og ég náði í hana á mánudagskvöldið til þess að fara í konfektgerð hjá Möllu. Kíkti inn hjá Stínu frænku í leiðinni og sá bæði Óðin og Kæju ekkert smá sætir krakkar. Þær systur voru allar í konfektgerð og við áttum mjög skemmtilegt kvöld. Ég er búin að kaupa næstum allar jólagjafir á bara eftir að klára börnin mín og eitthvað smá meira. Í gær fórum við Ásta í Kringluna og keyptum jólakjól á hana en Sella gaf Guðnýju föt og Úlfi líka svo ég slapp við það nóg kostar þetta samt. Nú svo var stelpnaboð hjá henni heima hjá okkur í gær þá komu allar stelpurnar úr bekknum nema eins sem komst ekki svo þær voru 8. Þær mættu með nammi og kökur með sér og spiluðu og skemmtu sér og höfðu gaman.

Í dag erum við með litlujól hér í vinnunni byrjar kl hálf 5 það verður bara voða gaman. Svo er stefnt á að hætta snemma á föstudaginn en þann dag á tengdó einmitt afmæli. Svo er loka á aðfangadag og gamlársdag vegna þess að í samningum bókagerðarmanna eru þetta frídagar svo það er lítið fyrir okkur að gera hér sem ekki tilheyra þeirri stétt þar sem við getum hvort sem er ekkert gert þegar þetta lið er í burtu. Jólakortin eiga að fara í póst í dag/morgun koma þá bara aðeins of seint það gerir ekkert til.

Nú ég gleymi vorum með jólasaumó um daginn heima hjá Þorgerði, Fjóla tók nokkrar myndir og sendi á mig en við vorum allar eins og bjánar svo þær verða ekki birtar hér haha.

Nú er Heiðrún mín komin til Kanarý væri alveg til í að vera með henni þegar ég horfi á rigninguna út um gluggann minn.

Mikið sakna ég Brynju minnar, Ingveldar og Rósu í dag ég væri svo til í að vera að fara á kaffihús með þeim á eftir bara til að kjafta og slappa af. Sakna þess að vera ekki að fara í afmæliskaffi í Ásabyggðina þann 1 jan í 36 ára afmæli Rósu ómæ stelpur við erum að nálgast árin 40 hægt og bítandi hehe en samt alltaf svo flottar og ungar.

Sakna hennar systur minnar í Þýskalandi vildi hafa hana mér nær, Áslaug koss og knús til þín.

Svo keypti ég 6+kg af kalkúni þar sem ég reikna með Þorgerði og co ásamt Maddý, Einari og Ássý í leifar þann annan í jólum. Eins gott að þið mætið annars verð ég að borða þetta fram að páskum hehe...

Langar að klára sem mest í dag/morgun og eiga helgina í fríi bara til að borða smákökur og vera með manninum mínum og börnum. Ingó er á Players á föstudaginn og ég ætla að skella mér með honum hann er svo flottur við settið, lang flottastur híhí...

Jæja núna er ég hætt þessu í bili koss og knús til allra sérstaklega til þeirra sem eru svo langt í burtu frá mér.

Monday, December 10, 2007

Jólin nálgast

Jæja ég ætlaði að vera búin að kaupa allar gjafir og gera öll kort á þessum tíma en eins og venjulega þá er ég ekki búin að því. En vitið þið hvað ég ætla heldur bara ekkert að stessa mig yfir því ég fer í það núna næstu daga að klára gjafirnar og kortin fer ég að gera í vikunni og þetta reddast allt. Ingó minn er búinn að skila af sér öllu varðandi kennslufræðina og ef það hefur blessast þá er hann bara búinn. Ásta er í prófi í dag og morgun svo ætti hún að fara að sleppa.

Helgin var góð, fengum Ingveldi, Simma og börn, Lindu, Ása og dætur og Lólu og Hrafnhildi í mat á föstudaginn. Það var alveg frábært að hitta þau öll vantaði bara Rósu mína og Brynju til að þetta væri fullkomið. En við áttum notarlega kvöldstund saman, Linda nýkomin heim og Ingveldur gengin upp að hnjám í búðum hehe.. Lóla alltaf í stuð :-). Nú Ingó átti að vera í fríi alla helgina en viti menn hringir ekki Bergur úr Buffinu í hann og biður hann að koma og spila með sér og Pétri á Amsterdam jibbí jei mikið varð ég glöð eða.. Á þessum blessaða stað er spilað frá kannski 3 hálf 4 og til 6 á morgnana svo ég var ekki að hoppa yfir þessu. En peningur er peningur eins og mér var vandlega bent á svo hann fór. Ég keyrði hann um kl 1 niður eftir og ætlaði bara aðeins að líta inn með honum fara svo heim og sækja hann þegar hann væri búinn og róta trommunum í bílin. En nei þegar ég kem þangað hverjir eru þá mættir aðrir en þeir tvíburar Freyr og Geir, síðar mættu þeir Gunni Sig og Rögnvaldur gáfaði og þar með var ég komin á svaka kjaftatörn og kl orðin 4 áður en ég vissi af og þá tók því ekki að fara. Þar fyrir utan mætti hann Fúsi hennar Arnhildar og við bara héngum saman allt kvöldið. Og til að toppa þetta allt þá hitti ég hann Denna fyrrverandi hennar Affíar svo þetta varð ansi áhugavertkvöld og eftir ball rótuðum við og vorum ekki komin í rúmið fyrr en hálf 8 um morgunin.

Nú á laugardaginn var svo jólahlaðborð á salatbarnum hjá honum Ingvari. Allt Greifagengið mætti þangað því okkur var boðið og þeir spiluðu eftir matinn fyrir gestina. Maturinn bara æðislegur eins og alltaf hjá Ingvari og ég búin að bíða síðan í fyrra eftir að fá koníaksbættu lifrarkæfuna hans sem er himnesk og ég varð ekki fyrir vonbrigðum frekar en í fyrra. Það komu allir nema Gunni Hrafn sem var að vinna á Herjólfi og fastur í Eyjum. Gunna hans Bjössa kom eftir Bjögga tónleikana og Beta koma aðeins seint líka. Þetta var bara alveg rosalega fínt kvöld gaman að hitta alla og enduðum á að fara ásamt Vidda og Hugrúnu heim til Jóns Inga og Rannveigar og sátum þar til kl að verða 2 þá heim.

Í gær var ég að versla og reyna að klára eitthvað sem ég á eftir að gera. Var frekar þreytt eftir helgina og svo var Ásta að læra undir próf sem er nú ekki gaman. Vona að vikan verði bara næs og bíð spennt eftir að lítill frændi eða lítil frænka komi í heiminn hjá þeim Sigðurði og Svanhildi en hún er skrifuð í dag. Gangi þér vel elsku mágkona.

Thursday, December 6, 2007

Ég er heppin því í lífi mínu er lítill gullmoli sem svo oft tekur utan um mig og segist elska mig. Hann er sá blíðasti sem ég þekki og kemur endalaust og segir við okkur að við séum bestu foreldrar í heimi. Stundum langar mig að halda honum endalaust og knúsa hann. Hann er oft mjög fullorðinn í málfari sínu en samt svo mikið litli sonur minn. Hann hefur veitt mér endalausa gleði í gegnum tíðina og þann dag sem hann bættist í hópinn varð fjölskyldan fullkomin.

Úlfur á Spáni 2006

Ég er heppin því ég á fallega 10 ára dóttur. Daginn sem hún fæddist breyttist allt í lífi mínu og til að byrja með var ég ekki viss hvernig ég átti að taka á því. Þó hún sé músin litla í skólanum þá er hún með eindæmum sjálfstæð og dugleg. Hún var langfyrst af börnunum mínum til að byrja að mata sig og klæða. Hún er klár og skemmtileg og elskar að syngja. Hún elskar okkur pabba sinn meira en allt annað í heiminum og daglega fæ ég koss á kinn frá henni og hún segist elska okkur hvað getur móðir beðið um meira.

Guðný í ferðalagi upp í Seljahjallagil sumarið 2007

Ég er heppin því þegar ég var tvítug breytti lítið barn lífi mínu. Þetta litla barn er orðið ung stúlka í dag. Hún hefur alla tíð verði mjög ákveðin og vitað hvað hún vill en hún hefur líka alltaf verið mikill dundari og listamaður í sér. Hún er fyndin og skemmtileg en getur líka rokið upp en er yfirleitt fljót niður aftur. Mér þykir óendalega vænt um hana og ég vona að hún viti að það er ekkert sem ég myndi ekki gera til að passa upp á hana og vermda.

Ásta í Heiðmörk vetur 2007

Þetta eru ljós lífs míns og eftir því sem maður eldist gerir maður sér betur og betur grein fyrir því hvað skiptir máli og hvað ekki. Ég er rík það er nokkuð ljóst og ég myndi ekki vilja lifa mínu lífi án þeirra.

Spánn sumarið 2006

En það er fleira sem gerir mig ríka og hamingjusama í þessu lífi. Ég er heppin því ég á besta mann sem hægt er að eiga. Við erum búin að vera saman í næstum 14 ár og ganga í gegnum súrt og sætt. Hann er besti vinur minn í öllum heiminum og án hans er ég bara hálf manneskja. Það tekur mann stundum langan tíma að átta sig á hvað það er sem við raunverulega viljum og hver við raunveruleg erum en þegar við náum því markmiði er leiðin bara uppá við. Hann er ótrúlega þolinmóður við mig og hann er ótrúlega skemmtilegur og það besta er að við getum talað um allt. Með hann mér við hlið finnst mér ég getað sigrað heiminn. Ég elska hann af öllu hjarta og óska þess heitast að fá að eldast með honum.

Ingó í nóvember á Vélsmiðjunni á Akureyri

Ég og Ingó saman á leið í leikhús vetur 2007

Ég er líka heppin að eiga góða stórfjölskyldu, bestu vini sem hægt er að hugsa sér í öllum heiminum, þak yfir höfuðið og búa við kærleika og ást það er eitthvað sem við getum aldrei tekið sem sjálfsögðum hlut. Svo óska ég þess að þið hafið það sem best á aðventunni ég verð með kaffi á könnunni ef þið viljð líta inn og vona bara að sem flestir geri það.

Wednesday, December 5, 2007

Örstutt

Desember kominn og ég er búin að vera svo upptekin bæði í vinnu og heima að ég hef ekki haft tíma til að blogga. Til að stikla á stuttu þá er Ingó að klára lokaverkefnið sitt í kennslufræðinni og situr núna sveittur við það heima. Ásta er í prófum og Guðný tók eitt próf í þessari viku. Guðný er reyndar búin að vera meira og minna kvefuð og veik síðan við komum að norðan svo hún var heima næstum alla síðustu viku og inni í skólanum síðan. Ingó var að spila í brúðkaupi niðri í KSÍ á laugardaginn og ég hringdi því í Friðborgu hans Péturs og hún og krakkarnir komu í heimsókn á meðan þeir stilltu upp. Planið var að Ingó tæki svo Pétur með sér heim í kaffi og ég bakaði skúffuköku og við Guðný bökuðum bollur. Nú Unnur hans Kidda K kíkti aðeins á okkur en þurfti að fara áður en við drukkum. Nú til að gera langa sögu stutta þá bara kom Ingó með alla hljómsveitina með sér og allar konur þeirra líka og börn svo þetta var bara hið mesta stuð. Við gerum þetta alltof sjaldan það er nú málið. Hitti á Sigyn og Didda í vikunni hef ekki séð þau lengi og nú eru þau í Danaveldi að kaupa jólagjafir. Ingigerði hef ég ekki hitt síðan ég veit ekki hvað þetta er bara ekki hægt og nú fer hún til USA í dag og ég dauðöfunda hana!! hehe.... Kíkti á Lólu á laugardagskvöldinu og við horfðum á Bridget Jones no 2 og skemmtum okkur vel. Bekkjarkvöld hjá Úlfi í gær þar sem hann kynnti verkefnið sitt sem var um silunga vel við hæfi. ekki satt. Linda mín kemur heim frá Bretlandi í dag hlakka mikið til að hitta hana og svo vona ég að Ingveldur sé að koma um helgina hef reyndar ekki fengið það staðfest. Eignaðist fyrsta Munda design kjólinn minn í vikunni og er geðveikt flott í honum og ætla að taka mynd og setja hér á bloggið mitt.

Þið sem eigið eftir að gera jólakort þá er að opna jólakortavefur hjá okkur í Gutenberg kíkið inn á síðuna okkar www.gutenberg.is og þetta er stór sniðugt og kostar ekki svo mikið.

Annars er það bara að byrja að jólast og hafa það gaman sem byrjar þegar Ingó minn er búin að skila af sér ritgerðinni sinni. Gangi þér vel ástin mín!