Thursday, May 29, 2008

Frábært veður

Ég nenni ekki að vinna, ég nenni ekki að vera inni í þessu góða veðri ég bara vil komast út, heim eitthvað annað en vinna :-). Í gær fórum við hjónin saman í Laugar og þá voru komnar næstum 2 vikur frá því ég hafði farið með honum síðast. Nýt þessa tíma þegar við löbbum niður eftir tvö saman hönd í hönd þar sem málefni dagsins eru rædd. Síðan er tekið vel á því stundum förum við í sitt hvort prógrammið en stundum förum við saman í hraðhringinn en síðan endum við saman í sjópottinum. Þetta er bara æði og ég nýt þess að fá þennan tíma með manninum mínum ein í friði. Svo þurfti Ingó á æfingu í gær með hljómsveitinni hans Eiríks Haukssonar sem heitir Start held ég en ég var heima málaði smá og horfði á tv. Krakkarnir eru bara úti og vilja helst bara ekkert koma heim og ég skil þau vel veðrið er svo frábært. Eftir vinnu í dag ætla ég í Trimform og hitta svo hann Ingó minn í sundlauginni og þar ætlum við að sóla okkur saman um stund. Í kvöld er Ingó á æfingu og ég ætla að klára herbergi Ástu og þá loksins er hægt að fara að taka til í húsinu.

Wednesday, May 28, 2008

Saumó og sól

Hitti Lindu í hádeginu í gær í Glæsibæ og við fengum okkur að borða og enduðum svo heima hjá henni og fengum okkur desert. Hún flaug út í morgun en kemur aftur 7 jún. Það var æði að hitta á hana eins og alltaf og ég vona að ég sjái hana sem mest í sumar. Eftir vinnu í gær hittumst við Ingigerður og Vigdís á Hilton hótelinu og fengum okkur Hilton High Tea sem er það nýjast hér á landi og þar verið að herma eftir erlendum siðum. Haustið 2005 þegar ég var að vinna í viðskiptasöludeildinni hjá Icelandair fórum við til London og fórum í svona teboð þar. Kaffihúsið í Harrods er rosalega flott og að fara í svona afternoon tea var æði. Fullt af skonsum og brauði og tei eins og við gátum í okkur látið. Svo ég átti auðvitað von á sambærilegu hér en maður má ekki gleyma að þetta er Ísland og hér eru bara sýnishorn af öllu. Við keyptum okkur svona High Tea og kostaði það 1900kr á mann og er þá ekki innifalið að fá te en það kostar um 400kr aukalega. Nú brauðið var svona ok og kökurnar svona la la og ekki hægt að segja annað en þetta hafi verið algjört peningaplott. Mæli ekki með að þið farið í svona þarna uppfrá heldur kaupið ykkur mat á veitingastaðnum hann er mjög góður. En það var gaman að hitta þær vinkonur mínar og það var mikið hlegið eins og venjulega þegar við hittumst. Nú bíðum við bara spenntar eftir hrossalundunum hennar Vigdísar sem hún er alltaf að monta sig af og er stefnan tekin á matarboð fyrir árið 2010 hehe... Í gærkvöldi var svo saumó hjá Írisi og þangað mættu Malla, Þorgerður, Heiðrún, Una og ég. Kristín í Svíþjóð, Dagný svaf klúbbinn af sér, Lóla að hjálpa Ásu frænku sinni og Fjóla að pakka. Þetta var síðasti klúbburinn í vetur en það er hittingur í Heiðmörk með börn og maka miðvikudaginn 4 júní kl 5 (þegar fólk er búið að vinna). Það var rosalega gaman hjá okkur og minningar frá Laugamótinu á Players rifjaðar upp og mikið hlegið. Ég hlakka bara geðveikt til þegar þetta verður næst! Ætla í ræktina með honum Ingó mínum í dag við höfum ekki farið saman síða í þarsíðustu viku og nú á að taka á því aftur.

Nú ég fékk sent frá honum Vidda vini okkar í Greifunum auglýsing um íbúð til leigu í Flórída. Ef einhver hefur áhuga þá bara hr í hann ég læt hér fylgja með:

Við hjónin eigum hlut í tveimur íbúðum í Orlandó sem við viljum endilega leigja út.
Gott væri ef að þið gætuð sent þetta áfram á einhverja sem að gætu haft áhuga.

Þessar íbúðir svo eru sannarlega lúxusíbúðir og svæðið allt stórglæsilegt og ekki skemmir Flórídasólin fyrir.
Þetta eru tvær vikur sem ég hef til þess að leigja út. Ein vika í íbúð með einu svefnherbergi fyrir mest 4 og svo önnur vika í íbúð með 2 svefnherbergjum þar sem geta verið 8. Svo er líka hægt að sameina þetta í eina íbúð fyrir 12 manns. Ég sendi mynd með til þess að hægt sé að átta sig betur á þessu. Það eru 3-4 kílómetrar í Disney og fleira skemmtilegt. Hægt að kaupa miða í Disney, Universal studios og fleira á góðu verði á svæðinu. Það er líka góð öryggisgæsla svo að þeir sem að ekki eiga erindi komast ekki inn á svæðið. Hægt að ganga á golfvöllin eða taka rafmagnsbíla sem eru um allt á svæðinu.

Hér fyrir neðan eru linkar á videó til þess að skoða íbúðirnar og svæðið betur.

Kynning
http://www.youtube.com/watch?v=uBbW62fBmqA

Golfvöllurinn úr lofti
http://www.youtube.com/watch?v=_e4ZLCzf_mE

Verðið fyrir vikuna í minni íbúðinni er 80.000kr en fyrir vikuna í stærri íbúðinni er verðið 130.000kr.
Hægt er að fara hvenær sem er (það er ef að það er laust).
Endilega hafa samband við Vidda í síma 8 200 007

Monday, May 26, 2008

Sól, ský og allt í senn

Helgin liðin og komin mánudagur. Kíkti aðein á Ingigerðir á föstudaginn eftir vinnu hef ekki séð hana í næstum 3 vikur en þau voru í Malasíu í um 2 vikur. Keyrði hana svo niður í bæ um kvöldið hún var að fara út að borða með kúnna. Við vorum róleg á föstudeginum og ég sérstaklega sem sofnaði aftur og aftur yfir videoinu ekki skemmtilegur félagði hehe... Nú svo hringir Ingigerður í mig um hádegi á laugardaginn og tilkynnir mér að Sigtryggur hafi verið á heimleið í miðbænum seint á föstudagsnóttu, séð þar 2 titti að slást og einn að reyna að stoppa þá. Þetta var nú allt voða saklaust eða þannig og hann ákvað að hjálpa aðeins til. En þeir bara gerðu sér lítið fyrir og réðust á hann og rotuðu hann. Hann rankaði svo næst við sér uppi á slysó en þaðan fékk Ingigerður hringingu um hálf 6 á laugardagsmorgni þar sem henni var tjáð að það væri allt í lagi með hann. En hann er allur krambúleraður í framan, með skurð á augabrúnni og bólgin á höndum og ég veit ekki hvað. Hann fer upp á löggustöð í dag og þá fær hann kannski að vita nákvæmlega hvað gerðist því þessi maður sem var þarna að reyna að stoppa guttana hafði gefið löggunni skýrslu. Já það er gaman að vera í Reykjavík oft á tíðum ég segi nú ekki annað. Sigtryggur minn láttu Ingigerði nú dekra við þig þessa vikuna kannski eina tækifærði þitt hehe...

annars fór helgin að sortera dót Ástu sem er um alla stofu og ákveða hvað á að vera áfram og hvað fer í kassa og hverju á að henda! Arndís kíkti á mig á laugardaginn með Birnu og við tókum myndir af henni sem ég set á netið þegar ég hef tíma. Við fengum okkur vínarbrauð sem Ásta kom með heim en hún er farin að vinna í Café konditori á Suðurlandsbraut svo núna er alltaf til nóg að brauði dóti. Arndís farin að fljúga og bara sæl með það og Birna að byrja á leikskóla í byrjun jún. Horfðum á Eurovision sem var bara eins og við var að búast og ekki finnst mér þetta merkileg keppni og finnst að við ættum að hætta að eyða peningum í að senda okkar fólk þarna út. Þetta er mikil klíka sem ræður öllu þarna og engin gefur sín stig til neinna nema sinna nágranna.

Á sunnudaginn fórum við í að tæma herbergi Ástu og svo fórum við Ingó með henni í Húsasmiðjuna og keyptum málningu og græjur og nú er verið að mála allt og gera fínt. Tók mér smá pásu í gær þegar við Lóla fórum með Guðnýju og Hrafnhildi í sund þar sem við hittum Ingó eftir æfingu hans í Laugum. Enduðum svo öll úti í Bónusvedeói þar sem keyptur var ís. Hélt áfram að mála langt frameftir og vona að ég klári þetta í dag.

Núna er verið að binda inn umsóknina mína fyrir HR og prenta forsíðu og gorma hana. Til hvers er að vinna í prentsmiðju nema fá svona gert vel. Vikan er ágæt, ég ætla að reyna að hitta á Lindu eitthvað og á morgun eftir vinnu er hittingur með Ingigerði og Vigdísi á Nordica í teboði það verður stuð. Svo kemur Linda Ýr vinkona mín í mat á fimmtudaginn við vorum saman í ferðamálaskólanum og hittumst aldrei svo ég hlakka mikið til. Ingó er að spila um næstu helgi með Eiríki Hauks á Players og svo fer hann eina nótt á Patró. Svo fer bara að styttast í Brynju, Fanneyju og Lanzarote og það verður bara æði. Hafið það nú öll gott í dag...

Tuesday, May 20, 2008

Laugamót

Þá er helgin liðin og hún var bara alveg frábær. Mamma og pabbi fóru á laugardaginn upp á Nes að skíra og það gekk bara allt vel. Ég eyddi deginum með Heiðrúnu, Dagnýju, Unu og Hrefnu í Kringlunni. Keypti mér kjól fyrir Laugamótið sem var um kvöldið og tösku fann ég í Smáralind. Það var rosalega gaman að hitta stelpurnar og máta og máta og enda svo á Café Blue eða hvernig sem það er skrifað. Ingó fór á Players að stilla upp og tók hádegismat með strákunum úr bandinu. Nú svo var það bara að bruna heim og taka sig til og vorum við Ingó mætt á Players rétt upp úr kl 7. Það var hreinlega ótrúlegt að hitta alla aftur sem maður hefur ekki séð í næstum 20 ár. Maður þurfti aðeins að stoppa og horfa á fólk til að vera viss um að þekkja það. Flestir lítið breyttir aðrir aðeins meira (eins og ég hehe). Það var alveg frábært að hitta hana Róshildi mína sem ég hef verið í litlu sambandi við undanfarin ár en nú skal verða breyting á því. Þórdís Jóna kom að sjálfsögðu í svaka stuði og þær Sísí mín og Sibba sem hafa verið með mér í að skipuleggja þetta Laugamót voru hressar og kátar. Lóla mætti síðar með nýja gæjan með sér og hann fær bara mína bestu einkunn get ekki sagt annað. Lóla go go :-). Við vorum öll úr Mývatnssveit þarna nema Sölvi sem var á sjó. Viðar hef ég ekki séð í mörg ár en hin eitthvað meira. Svo auðvitað kom fullt fullt af góðu fólki sem var með okkur í skóla eins og Heiðrún, Dagný, Una, Íris, Össi, Gísli Torfi, Ásgrímur og fleiri og fleiri og ekki var hvað síst gaman að hitta Huldu dóttur Dúdda og Beggu sem ég hef ekki séð síðan ég var krakki. Hún kom með Systu vinkonu minni úr Mývatnssveit en þær voru saman á Laugum. Og ég segi bara eins og Heiðrún sagði maður bara snéri sér við og þá þekkti maður einhvern. Enda vorum við búin að auglýsa þetta ekkert smá vel. Senda tölvupóst á fólk, stofan grúppur á Facebook og ég lét Ingó senda fréttatilkynningar á útvarpsmenn og það höfðu þónokkrir frétt af þessu skemmtilega móti okkar. Þannig að það kom hellingur sem kom sér svo vel fyrir okkur Ingó þar sem hann var að spila og allir græddu. Planið er að hittast aftur eftir 5 ár og gera eitthvað skemmtilegt en jafnvel hóa liðinu við og við saman á kaffihúsi eða eitthvað og þá koma bara þeir sem komast. Saknaði Margrétar vinkonu minnar Baldvinsdóttur og vona að hún komi næst! Var dauð í fótunum þegar við komum heim og það var sofið út á sunnudaginn langt frameftir. Segi bara við þá sem mættu á laugardaginn takk fyrir frábært kvöld!!!!!

Nú fyrir utan þetta þá er ég búin að vera að læra með krökkunum undir próf og er komin með prófkvíða hehe en þeim er nú bara að ganga vel. Ingó er ansi upptekinn í þessari viku með hinum og þessum böndum enda svo flottur þessi elska að allir vilja vinna með honum ;-).

Eurovision er um helgina kannski maður hói í einhverja í mat. Ingigerður og Sigtryggur eru komin frá Asíu og ég á eftir að sjá myndir hjá þeim og hlakka mikið til. Ef þau eru ekki upptekin á laugardaginn þá kannski dreg ég þau hingað.

Hef þetta ekki lengra í bili. Set myndir seinna.

Thursday, May 15, 2008

Laugaskóli og fleira skemmtilegt

Jæja það var Eurobandið á laugardaginn þvílíkur troðningur. Byrjuðum á að fara í heimsókn til Péturs og Friðborgar og hafa það gott þar. Vorum svo mætt til Þorgerðar um hálf 12 og keyptum miðana áður en við fórum. Gilli og Malla voru þarna líka og við skelltum okkur öll á Players og áttum gott kvöld. Á sunnudaginn var nú meira og minna bara verið að slappa af. Affí, Elli og Valdemar komu svo öll í kvöldmat til mín og ég gerði mexíkanska kjúklingasúpu. Svo var planið að fara að horfa á video með Ingó en þá sendi Friðborg sms og þau Pétur voru á leiðinni á Sólon til að fá sér einn drykk og við auðvitað ákváðum að hitta þau þar. Sátum með þeim til að verða 2 en fórum þá öll heim. Á mánudaginn tókum við herbergið hennar Guðnýjar í nefið og það var bara hreinlega öllu skipt út nema rúminu. Núna er hún með skrifborðið hennar Ástu og hillu frá henni og við erum búin að taka allt dót úr herberginu hún vill ekki neitt dót. Allt Bratz og þannig komið í kassa og upp í geymslu. Svo litla barnið mitt vill bara verða unglingur hehe nei en þær Jasmín eru bara alltaf úti að leika. Þær eru úti að hjóla, í sundi, í lautarferð eða með tombólur svo þær hafa engan tíma til að leika inni. Við fórum með svona 6-7 poka af rusli út í tunnu og svo tók ég fataskápinn hennar í gegn líka og þetta fór svo allt í sorpu næsta dag. Nú á bara eftir að klára herbergi Ástu og þá er þetta nú að verða ansi gott. Svo var saumó á þriðjudaginn hjá Unu og þangað fór ég með fullan poka af fötum handa Möllu og gaf svo spariskó af honum handa Unu, Heiðrún fékk 2 utanyfir flíkur handa Kareni og Sigga tók líka og svo fékk Kristín glingur handa Ingibjörgu prinsessu svo þetta fór nú allt í góða endurvinnslu. Það var gaman í saumó vantaði bara Fjólu og Dagnýju en við hinar skemmtum okkur vel. Það var auðvitað mikið rætt um Laugarhittingin sem er á laugardaginn á Players. Eða við sem erum 20 ára gagnfræðingar hittumst þar á undan svo koma bara allir sem vilja á ballið og þar spilar Ingó með Spútnik svo þetta gæti ekki verið betra. Annars bara gott að frétta mamma og pabbi verða hér fram á laugardag en fara þá að skíra fyrir Sigurð og Svanhildi uppi á nesi. Ég er búin að fara í 3 trimform tíma og er enn lifandi hehe og ætla með Ingó í ræktina í dag. Veður er æði og ég hef þetta ekki lengra í bili.

Saturday, May 10, 2008

sól, rigning,vor

Skellti mér í sund fyrir vinnu á fimmtudaginn í sól og blíðu og synti 400 m og fór svo í pottinn það var geggjað. Svo varð frekar þungbúið og ég hélt að það myndi rigna en svo varð úr besti dagur vorsins. Mamma og pabbi komu í bæinn þennan dag og ég var á námskeiði uppi í Kassagerð til kl 6. Þá hr Ingó í mig var staddur í Laugum og ég skellti mér á brettið í smá stund og svo fórum við í sjópottinn meiriháttar. Sólin skein og ég labbaði á bolnum heim. Á föstudagsmorgun kl 8 var ég mætti í trimform grrr ekki get ég sagt að þetta sé notarlegt svo það er eins gott að það virki. Allavega er ég með góða strengi eftir þetta get ég sagt ykkur. Nú í gærkvöldi var kósý kvöld með krökkunum og ég var svo búin á því að ég steinsofnaði fyrir framan sjónvarpið og gat bara ekki opnað þau til að hjálpa Ingó að koma þeim í rúmið og svo þurfti að sæja Ástu og það var ekki séns að ég gerði það. Í morgun fór ég með Ingó og bar út í eitt hverfi. Æðislegt veður, samt smá úði en hlýtt og gott. Vorum í götunni hennar Möllu og ég bankaði upp á og afhenti Össa blaðið persónulega. Kl 3 í dag var svo kaffiboð hjá Möllu og ég fór þangað með þeim gömlu og Úlfi. Guðný er farin í bústað með Jasmín og Ásta og Ingó nenntu ekki. Þær systur mættu allar með svaka veitingar og þetta var hin besta skemmtun. Núna áðan grillaði ég handa liðinu og svo fórum mamma og pabbi að passa fyrir Bróa. Ásta er úti með Siggu og Úlfur farin til Sellu. Við Ingó ætlum að kíkja á Pétur og Friðborgu og svo á Players að sjá Eurobandið vonandi með Þorgerði og Gilla. Hef þetta ekki lengra í bili vona að allir eigi góða hvítasunnuhelgi.

Wednesday, May 7, 2008

Trimform

Jæja byrjaði daginn á því að fara í prufutíma í Trimform Berglindar. Þeir sem ekki vita hvað það er þá virkar það þannig að þú leggst á bekk og það er komið fullt af blöðkum fyrir á þér og svo er hleypt í það rafmagni. Við þetta herpast vöðvar og slakna á víxl og þú ert að taka ansi vel á því. Ég ætla að kaupa mér 10 tíma í þessu og nota í 1 mánuð svona til að hjálpa maganum mínum og öðrum slöppum svæðum að ná sér á strik. Samhliða þessu er ég svo auðvitað í Laugum. Get nú ekki sagt að mér finnist þetta voðalega notalegt en þetta venst eftir smá stund. Núna er ég bara með netta strengi hehe... Í gær eftir vinnu tókum við 2 umferðir í hraðhringnum i Laugum sem er ágætt að gera þegar ég er að vinna 9-5. Tekur stuttan tíma og maður tekur samt vel á. Í gærkvöldi horfðum við á video og höfðum það bara kósý. Úti er þungbúið en samt voðalega hlýtt og gott verður. Ingó er búin að sækja hjólið hans Úlf í viðgerð og hann er nú alsæll hjólandi um allt. Guðný er líka komin með hjól en er ekki búin að vera dugleg að nota það. Nú er hún Ingigerður mín að verða komin langleiðina til Malasíu en þar verður hún til 17 maí. Fékk sms í morgun frá henni þá var hún stödd á flugvellinum í Kuala Lumpur mikið dauðöfunda ég þau hjónin en samgleðst þeim, vildi bara vera með í þessari ferð.

Tuesday, May 6, 2008

Akureyri

Jæja það var nú gott að komast til mömmu og pabba. Lögðum af stað um 2 leytið á fimmtudaginn með allan skarann og Siggu vinkonu Ástu. Ferðin gekk bara vel nema Úlfur var eitthvað bílveikur en lagaðist í Staðarskála eftir að hafa fengið sér að borða. Affí og Aldís voru í Litluhlíð þegar við komum og mamma hafði eldað hangikjöt og eftir það var nú bara slappað af. Ásta og Sigga gistu hjá Affí en við hin í Litluhlíð. Á föstudaginn þá sváfum við út sem var frekar ljúft. Eftir hádegi fór Guðný til Kristínar og Úlfur fór að leika við Arnar Frey en við Ingó skelltum okkur niður í Átak ræktina sem stendur út við sjó. Það er bara alveg æðislegur staður, sömu græjur og í Laugum bara miklu meira næs og minna og rólegra. Eftir það skaust Ingó heim og náði í sundfötin okkar því þarna var þessi líka flotti pottur staðsettur uppi á þaki. Svo við nutum þess eftir púlið að liggja í honum og slaka á. Veðrið á fimmtudaginn og föstudaginn var ekki gott á Akureyri því miður því það var æði í Reykjavík. Um kvöldið komu strákarnir í Spútnik og Ingó fór til þeirra að stylla upp. Ég fór til Arnhildar á meðan en Guðný gisti hjá henni. Við frænkur kjöftuðum í örugglega 2 klst og höfðum það gott. Ég skellti mér svo með honum á ball um kvöldið, var ekki viss hvort ég yrði allan tímann en svo sendi ég sms á Áslaugu systur Brynju og hún í þessu líka dansstuði kom og hitti mig. Ingveldur skvísa sem átti að halda mér selskap þessa helgi breytti plönum sínum og fór til Reykjavíkur svo ekki náði ég að draga hana á gólfið með mér. Nú við Áslaug skemmtum okkur konunglega og ég var nett þreytt þegar ég fór í rúmið.

Á laugardeginum fórum við í graut í Norðurgötu og hittum alla nema Maddý sem var í einhverju söngstússi þessa helgi. Auðvitað tók ég engar myndir klikkaði alveg á því. Úlfur kom ekki með okkur því hann var með vinum sínum en Guðný og Kristín komu og svo síðar Arnhildur. Eftir matinn fórum við Ingó inn í bæ og ég keypti mér einn kjól og eitt gallapils og svo settumst við niður fyrir utan Kaffi Akureyri með strákunum úr hljómsveitinni því á laugardaginn var sól og bongóblíða. Ég ætlaði að draga Arnhildi með mér í bæinn en hún fór á móturhjól með Fúsa sem var bara mjög gott mál. Ingó fór svo á Vélsmiðjuna með strákunum eitthvað að stússast en ég fór heim. Um kvöldið var Biggi eigandi Vélsmiðjunnar og Júlía konana hans (hún var með Þorgerði í bekk í gamladaga) búinn að bjóða Spútnik og mér heim til sín í mat. Það var bara alveg frábært ekkert smá góður matur og bara yndislegt kvöld. Hjómsveitin var fjölmenn þar sem Óli bassaleikari var með þeim þessa helgi. Kiddi K átti að vera í Barcelona þessa helgi en fór svo ekki og kom líka norður svo þetta var helgar stemning. Pétur og Óli eru báðir að koma til Lanzarote með okkur í sumar. Pétur í 2 vikur með sína fjölskyldu en Óli nær einni viku með okkur. Við gátum því spjallað heilmikið um það og bollalagt. Vorum svo mætt á Vélsmiðjuna um kl 12 þar sem var rífandi stemning og þar hitti ég hana Hönnu Berglindi vinkonu Brynju (og mína) og við dönsuðum meira og minna alla nóttina. Fullt af fólki og bara gaman. Eftir að búið var að pakka saman fórum við Ingó í smá stund með Pétri upp á hótel að spjalla og svo heima að sofa.

Á sunnudaginn áður en við fórum heim komu Bibba, Sirrý og Gummi í heimsókn til mömmu og pabba og eins var Diddi bróðir mættur á svæðið og Affí var þarna líka. Pökkuðum svo niður og sóttum svo Guðnýju til Arnhildar og Fúsa. Kom við hjá Lillu sem gaf mér rós sem hún hafði ræktar upp af afleggjar af fermingarrósum Ástu ekkert smá flott og hún stendur núna í stofuglugganum heima. Ferðin heim gekk vel rigndi alla leið í Staðarskála en fínt eftir það.

Í gær var það svo vinnan og ég er þessa vikuna 9-5 sem mér finnst afspyrnu leiðinlegt en verð víst að láta mig hafa það. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég að sækja um í viðskiptafræðinni í HR og þarf að klára umsóknina mína fyrir 30 maí og svo er bara að krossa sig að maður komist inn.

Ég byrjaði daginn á því að skella mér í sund og synda 400m og fara svo í sjópottinn og eftir vinnu ætlum við Ingó í Laugar. Á morgun ætla ég að fara í prufutíma í trimformi og sjá hvernig það virkar. Vikan er nokkuð óráðin pabbi og mamma eru þó að koma annað ekkert planað.