Monday, October 29, 2007

Ammæli í dag

Í dag er ég afmælisskvísa. Þakka öllum sem eru búnir að hringja, senda sms eða spjalla á emaili eða msn í dag. Mikið er ég rík af vinum. Átti yndislegan dag í gær með fjölskyldunni minni í sól og frosti uppi í Heiðmörk tókum fullt af myndum sem ég hendi inn seinna. Hitti svo Lindu og Ása aðeins í gærdag gaman að hitta hana Lindu mína aftur. Nú á föstudaginn komu Ingigerður og Sigtryggur í mat og það var meiriháttar kvöld borðuðum góðan mat, spiluðum lúdó og drukkum kampavín. Kíkti svo á Gaukinn með Ingó hann átti að vera að spila þar, illa mætt hættu snemma. Svo var laugardagurinn rólegur Ingó að stilla upp í Valsheimilinu spilaði á árshátíð þar um kvöldið. Ég var heima róleg það kvöld. Annars bara allt gott að frétta....

Thursday, October 25, 2007

vikan

Það má nú segja að ég sé löt að blogga hef bara ekki skrifað lengi lengi. Skrapp með Ingó á Players á föstudaginn ætlaði ekkert að stoppa en ílengdist svo þar sem ég hitti vinnufélaga minn og lenti á kjaftatörn við hann. Vöknuðum snemma á laugardeginum og skelltum okkur á Krókinn með Spútnik. Allir fóru með bílnum nema Kiddi K og Unnur því Kiddi var að sjá um árgangsmót á Króknum og það var nú ástæðan fyrir ballinu. Gistimál klikkuðu svo við Ingó leigðum okkur lítin rosalega sætan sumarbústað bakvið hótel Tindastól. Allt úr viði og voða kósý. Svo var okkur boðið í mat til Kalla Jóns sem er fyrrum trommari Herramanna (vinur Stjána söngvara og Kidda K). Hann og Guðný kona hans búa í litlu sætu húsi á Króknum og þangað fórum við öll nema Kiddi K og Unnur sem voru í mat með árgangsliðinu. Mætt voru líka Árni og Hófí frá Reykjavík vinir þeirra og það kom í ljós og sonur þeirra hafði verið með Ástu á leikskóla. Boðið var upp á lambalæri og meðlæti sem var alveg rosalega gott. Svo var farið inn í stofu og setið yfir eftirréttum og drukkið gott með því. Við Ingó fórum svo um hálf 11 og lögðum okkur hálf þreytt eftir fyrra kvöldið. Krakkarnir voru hjá tengdó og Ásta hjá vinkonum sínum. Mamma og pabbi voru enn í Reykjavík en fóru á sunnudeginum heim. Svo við vorum bara róleg þarna saman tvö. Kl rúmlega 12 mættum við á ballið. Það hitti ég Unni hans Kidda og við vorum saman út ballið enda er hún alveg frábær stelpa. Nú það var stappað á Hótel Mælifelli sem var gott fyrir buddun okkar hehe... Þegar ballinu lauk voru hinir meðlimir bandsins búnir að fá nóg og eftir rót komu Kiddi Einars og Pétur með okkur Ingó upp í kofann okkar litla og sæta og ræddu þar málin fram til kl 7. Nú gott var að sofna og þar sem það var ekkert stress að skila húsinu næsta dag þá sváfum við út og pöntuðum okkur pizzu og höfðum það næs. Ákváðum svo að fara ekkert heim með strákunum enda fóru þeir alltof snemma að okkar mati heldur fengum far með Kidda K og Unni og fórum ekkert fyrr en hálf 6 í bæinn. Var nú frekar þreytt á mánudaginn get ég sagt ykkur.

Nú á þriðjudaginn var saumó hjá Siggu Dís. Rosalega huggulegt hún var með mexíkanska kjúklingasúpu og bauð svo upp á kökur og nammi á eftir Sigga mín takk fyrir frábært kvöld. Allar mættar nema Dagný og Fjóla. Það var að venju mikið hlegið og spjallað og þetta var meiriháttar skemmtilegt kvöld. Stelpur gleymdum að ákveða hver á að halda næst!!!

Nú helstu fréttir úr líkamsræktarmálum eru þær að eftir mikinn dugnað og mikinn aga þá hef ég komist niður úr tölunni 70 og eitthvað... Mældist 69,90kg í dag í Laugum það þýðir að um 8kg eru fokin og ég segi bara húrra fyrir sjálfri mér!!!!!!!!! :-) Nú held ég bara ótrauð áfram og þá verður nú gaman að fara í kjólin um jólin.

Helgin nálgast planið að borða með Ingigerði og Sigtryggi á morgun hér heima hjá okkur. Það verður ljúft höfum lítið hist undanfarið en bætt okkur það upp með emailum og svo á facebook. Allir að koma á facebook. Svo er Ingó á Gauknum þar á eftir og líklega kíki ég á hann. Svo er hann á árshátíð Húsasmiðjunnar á laugardaginn þá verð ég bara róleg heima nema einhver góð vinkona bjóði sér í heimsókn...

Skelli hér inn nokkrum myndum úr keiluferð okkar saumó gella hér í haust.


Fjóla stigavörður klár í slaginn

Malla mundar kúluna


Þorgerður tilbúin í slaginn


Malla í stuði enda vann hún okkur í þetta skiptið



Skvísan í keilu


Og hér er keilugengið Þorgerður, Malla og Fjóla hvar eruð þið hinar hummmmm



Glæsilegar frænkur við Malla saman

Thursday, October 18, 2007

Vikan

Mynd tekin af okkur Ingó á balli með Spútnik fyrstu helgina í október

Á mánudaginn fékk ég skemmtilegt sms frá henni Rósu vinkonu minni sem býr í París. Haldið þið ekki að skvísan hafi bara verið á landinu í tilefni 60 ára afmælis föður síns og skírnarinn hjá Ingu Jónu systur hennar. Litli kúturinn var nefndur Þórir Snær og ég segir bara til hamingju Inga og Siggi. Nú mamma var búin að plana að elda lambalæri svo það var kjörið að fá Rósu í mat og svo kom hann Valdemar Örn frændi líka. Kvöldið var bráðskemmtilegt enda ekki á hverjum degi sem við Rósa erum saman.

Annars er það helst að frétta að ég er búin að vera lasin í 2 daga með hálsbólgu, hausverk og smá hita. Ætla nú að drusla mér í vinnuna á morgun nenni ekki að hanga heima lengur. Er þó skárri í dag en ég var í gær svo ég hef aðeins verið að dunda mér við að laga til í myndunum okkar í tölvunni. Hér eru t.d. myndir sem Ásta tók af okkur Ingó um síðustu helgi þegar við vorum á leið í leikhúsið með Vidda og Hugrúnu áður en hann ákvað að fara að góma hjólaþjófa.




Annars er svo sem lítið að frétta ætla að fara með Ingó á Sauðárkrók á laugardaginn hann er að spila þar. Þetta er bara ein nótt svo ég ætla að skjótast með. Veðrið er ógeð rigning og rok svo það er ágætt að þurfa ekki að vera úti. Ingó er að spila á Oliver í kvöld með Softtones verst að gera ekki farið með honum þangað. Annað ekkert fréttnæmt.

Sunday, October 14, 2007

Viðburðarrík helgi

Enn ein helgin liðin og nóg um að vera. Pabbi og mamma komu á föstudagskvöldið og við Ingó sóttum þau til Keflavíkur. Pabbi slappur í maga og dauðfeginn að vera komin heim. Á heimleiðinni sáum við bílslys og síðar kom í ljós að þetta voru Heiður vinkona Ástu og Gréta mamma hennar. Hvorug slösuð alvarlega en maður að taka framúr klessti á þær. Svona er liðið hræðilegt í umferðinni. Nú á laugardaginn fór ég í Bónus með pabba og svo fórum við Ingó með þau litlu í sund. Kl hálf 7 vorum við hjónin svo mætt niður í Iðnó í mat með Vidda greifa og Hugrúnu og sáum svo sýninguna Pabbinn. Það var bara mjög skemmtilegt og við áttum huggulegt kvöld með þeim. Eftir leikhús kíktum við aðeins á Borgina á Silfrið og fengum okkur einn drykk þar. Svo brunuðum við Ingó út í Kópavog í sal þar sem Sella var í 50 ára afmæli bróðursonar síns. Við settumst þar inn og sátum góða stund og svo keyrðum við Sellu heim og þá fórum við í Ölver. Hann Ingó minn hefur gaman af að syngja svo þetta var staðurinn. Þar var svaka afmæli í gangi allir í búningum og t.d. mætti Björn Jörundur (systir hans átti afmælið) og söng Whitney Houston lagið I wanna dance with somebody... frekar fyndið enda réði hann ekki lagavalinu. Nú stoppuðum ekki lengi þarna og vorum komin heim um hálf 3. En þetta kvöld átti eftir að enda á ótrúlegan hátt. Og kemur hér sagan af Ingó og hjólinu.

Um hálf 5 vorum við á leið í háttinn þegar mér verður litið út um gluggann í risinu og sé mann á hjóli og annan gangandi. Ég sá að sá sem labbaði var að kíkja inn í bíla sem stóðu á planinu og datt því í huga að kannski ætluðu þeir að ræna einhverju ef þeir gætu. Ég æddi inn á baðherbergi til Ingó og við opnuðum gluggann og þá sér Ingó þennan sem var gangandi koma inn í garð til okkar og taka eitt af hjólunum okkar og hjóla í burtu. Ég gargaði á eftir þeim en þeir bara hjóluðu í burtu. Nú minn maður var ekki lengi að skella sér í gallabuxur og jakka og hlaupa út. Ég beið inni hálfnakin svo ég gat ekki hlaupið á eftir honum. Nú eftir c.a. 4-5 mín þegar Ingó var ekki kominn til baka var mér ekki farið að lítast á blikuna og dreif mig upp í buxur og bol og hljóp út. Þegar ég kom út var Ingó á bak og burt og ég fór nú að panikera. Ég hljóp út að apótekinu á horninu kallandi á hann, en hann var bara horfinn. Ég fór inn aftur fann símann minn og tók bíllykla pabba og út í bíl. Og svo keyrði ég um göturnar kallandi og gargandi á Ingó en bara sá hann hvergi og var orðin svo hrædd að ég hélt ég myndi bilast. Strákarnir í kjallaranum sátu úti og lofuðu að hringja í mig ef Ingó kæmi heim. Nú á Hraunteignum sá ég 2 menn í sendiferðabíl og ég renndi upp að þeim og spurði þá hvort þeir hefðu séð manninn minn sem þeir höfðu ekki og eftir að hafa sagt þeim að hann hefði farið á eftir þjófunum ráðlögðu þeir mér að hringja á lögguna sem og ég gerði. Löggan sagði mér að fara heim og bíða eftir þeim þar og ég gerði það. Nú var ég orðin svo rosalega hrædd að ég var að missa mig. Úti var kolniðamyrkur og ég sá fyrir mér að þessir gæjar hefðu bara ráðist á hann og dregið hann niður í Laugardal og væru að misþyrma honum. Ekki nema von að maður hugsi svona þar sem um síðustu helgi var ráðist á menn rétt hér hjá okkur. Löggan var komin innan 5 mín og það 2 löggubílar. Annar bíllinn fór strax að leita eftir að hafa fengið lýsingu hjá mér en hinir komu út að tala við mig. Önnur löggan tók utan um mig og reyndi að róa mig enda var ég bara í hysteríukasti. Þeir tóku gsm hjá mér og lofuðu að hringja um leið og þeir fyndu hann sögðu mér að vera róleg þetta væri örugglega allt í lagi og létu mig lofa að hringja ef hann kæmi heim. Ég fór inn alveg að tryllast og beið og beið eftir að heyra frá þeim það liðu sem betur fer ekki nema um 5 mín þar til það var hringt og mér sagt að hann væri fundinn. Og þá bara brast ég í grát ég fékk svo að tala við hann og ég grét bara og grét. Hann var þá á Kirkjuteignum að koma með hjólin og ég hljóp út að taka á móti honum og bara missti mig þegar hann kom heim og gat bara ekki hætt að gráta. Um leið og hann kom að húsinu komu strákarnir í kjallaranum keyrandi þeir höfðu þá líka farið að leita að honum þessar elskur. Ég ætlaði aldrei að ná mér niður eftir þetta en mikið var ég fegin að fá elsku ástina mína heila á húfi heim. Þetta voru verstu 40mín sem ég hef lifað.

En svona er sagan hans Ingó. Hann hljóp niður Kirkjuteiginn og að pylsuvagninu við sundlaugina þá sá hann þá á leið upp að Laugarásnum. Þá skokkaði hann á eftir þeim,ætlaði bara að elta þá þar til þeir myndu leggja hjólin frá sér. Var ekkert að nálgast þá of mikið en hafði þá alltaf í sigtinu. Þeir teymdu hjólin upp að þar sem Krónan var (hjá Norðurbrúninni) og þar fóru þeir á þau aftur. Svo beygðu þeir niður hjá Krónunni og þá hljóp hann á eftir þeim. Þeir fóru alveg niður að botninum á Norðurbrúninni og úr augnsýn og þá hjóp hann á eftir þeim og náði þeim þar sem þeir voru að teyma hjólin niður tröppur og þar náði hann þeim og heimtaði hjólin á ensku því þetta voru útlendingar. Hann þurfti aðeins að toga í hjólin og hálsmenið hans slitnaði en þeir gáfust fljótlega upp og hlupu í burtu. Ingó tók svo bæði hjólin og teymdi þau heim. Reyndar er annað hjólið ekki okkar heldur líklegt að þeir hafi stolið því á öðrum stað.

S.s maðurinn minn hljóp hinu meginn í Laugardalinn á eftir þessum mönnum og var ekki lengi að. úff og púff vil aldrei upplifa svona aftur nokkuð sama um einhver hjól en ekki um hann. Tók okkur klst að ná okkur bara niður eftir þetta allt og til að byrja með þá bara grét ég og hló til skiptist.

Svona var nú nóttin sú en ég þakka löggunni skjót viðbrögð og þakka Guði fyrir að fá ástina mína heila á húfi heim.

Friday, October 12, 2007

vikan

Vikan búin að vera frekar róleg en samt. Fór í ræktina á mánudaginn með Ingó var samt frekar þreytt eftir helgina. Á þriðjudaginn átti að vera saumó en vegna mjög slakrar mætingar þá sagði Heiðrún mér að taka bara Ingó með og Jón Smári yrði heima. Þetta gerðum við og Ásta passaði systkynin sín. Mættar voru fyrir utan okkur Íris og Kristín. Kvöldið var bara mjög huggulegt. Var heima á miðvikudaginn slöpp í hálsi og með hausverk. Ingó skrappa á tónleika með Pétri vini sínum um kvöldið og á Players í pool. Í gær átti Sigtryggur afmæli til lukku með það gamli. Ingigerður bauð okkur í súpu ásamt Gunnari bróður hans og Fanneyju vinkonu sinni. Langt síðan við höfum borðað saman svo þetta var mjög huggulegt. Arndís, Geiri og Birna Rún kíktu á mig áður en ég fór í afmælið sú stutta er nú meiri krúsidúllan. Tók því miður engar myndir í það skiptið. Mamma og pabbi eru að koma í kvöld og ég sæki þau til Keflavíkur seint í kvöld. Annars er hann Ingó minn bara í fríi þessa helgi og við ætlum að njóta þess að vera saman og gera eitthvað með krökkunum. Reyndar förum við í leikhús og út að borða með Vidda greifa og Hugrúnu konu hans á laugardagskvöldið. Förum í Iðnó að sjá Pabbann og borðum þar á undan. Eftir það er s.s. ekkert ráðið hvað verður gert. Hildur Valdís og Dagur Elís bjóða til afmælisveislu á sunnudaginn og maður kíkir þangað.

Þar sem aðalfréttin í vikunni fyrir utan það að borgarstjórnin er fallinn er að Yoko ekkja John Lennon kom og kveikti hér á friðarsúlu úti í Viðey. Í tilefni af því fann ég ljóð eftir John sem ég læt fylgja hér á eftir og tileinka öllum elskendum í heiminum... Góða helgi...

Love
John Lennon

Love is real, real is love
Love is feeling, feeling love
Love is wanting to be loved

Love is touch, touch is love
Love is reaching, reaching love
Love is asking to be loved

Love is you
You and me
Love is knowing
We can be

Love is free, free is love
Love is living, living love
Love is needing to be loved

Monday, October 8, 2007

Árshátíð

Jæja þá er helgin liðinn og aftur kominn mánudagur. Veðrið í gær og í dag er búið að vera alveg frábært sól, milt og haustlitir fallegir sem aldrei fyrr. Ég keyrði Ingó á Amsterdam á föstudaginn ætlaði ekki að stoppa neitt en Arndís frænka var í afmæli á Domo og við sóttum hana og hún settist inn með mér á Amsterdam og svo keyrði ég hana heim. Það var bara fínt fyrir utan að einn frekar fullur gaur þurfti endilega að koma og spjalla við Ingó og settist svo bara hjá okkur. Hann var s.s. ekki með nein læti en ekki var hann heldur neitt voða skemmtilegur. Furðulegt hvernig fólk heldur að það hafi rétt á að setjast upp á fólk þó það þekki það í útliti. Arndís bara hress hætt að fljúga hjá Icelandair eða þar til hún fær vinnu þar næst sem gæti verið t.d. í mars. Nú ég var komin í rúmið um kl 3 og náði að sofa til kl 6 þá fór ég og sótti hann Ingó minn niður í bæ.

Sváfum út á laugardaginn svo fór Ingó að stilla upp fyrir árshátíð á Nordica. Ég fór í að keyra krakkana til tengdó en þar áttu þau að vera á meðan árshátíð Kvosar (sem á Gutenberg) var. Ég fór í rauða kjólinn minn og verð að segja að ég leit bara ansi vel út en auðvitað klikkuðum við á að láta taka myndir af okkur saman. Nú við vorum svo mætt á Hótel Holt kl hálf 6 en þar var fordrykkur hjá Gutenberg. Skemmti mér bara mjög vel þar og svo kom rúta og sótti okkur og keyrði upp í Gullhamra þar sem árshátíðin var. Matur var góður, skemmtiatriðin voru nú svona la la og svo spilaði Sniglabandið á eftir og mér fannst þeir svona ágætir. Ingó þurfti að fara um kl 11 en svo var hann bara að spila til hálf 2 svo ég skellti mér í taxa og sótti hann á Nordica og við fórum svo saman á Amsterdam. Þegar þangað kom hittum við Evu Ásrúnu Albertsdóttur söngkonu. Hún var hress og kát og það endaði með því að við tvær vorum bara saman allt kvöldið. Hún er náttúrulega frænka hennar Fríðu frænku minnar í Mývatnssveit. Mér fannst Eva þrælhress og við dönsuðum í fleiri klst saman. Svo hitti ég líka fullt af tónlistarmönnum sem voru að koma úr giftingu Óla Hólm trommara í Nýdanskri svo maður þekkti nokkra þarna. Var orðin frekar þreytt þegar maðurinn minn var loksins búin að spila rúmlega 6. Þá drifum við okkur heim og þegar ég var búin að steykja egg handa honum og stjana aðeins við hann þá lognuðumst við útaf.

Sunnudagurinn fór í að vera þreyttur og gera ekki neitt. En Ingó þurfti að fara að lesa hundleiðinlega grein fyrir skólann svo hann fékk ekki mikla hvíld. Gerðum s.s. ekki mikið í gær.

Hún Dagný vinkona mín eignaðist litla prinsessu í gær. Elsku Dagný og Helgi til lukku með dótturina. Hlakka til að fá nánari fréttir af því þar sem hún Heiðrún var ekki með þetta á hreinu.

Vikan verður bara róleg mamma og pabbi koma á fimmtudaginn en svo er planað að fara í leikhús með Vidda greifa og Hugrúnu á laugardaginn á Pabbann. Annars á svo bara að vera með börnunum og knúsa manninn minn..

Thursday, October 4, 2007

Meinhægt

Það rigndi og rigndi og sá ekki sól við sátum út við gluggan sitt á hvorum stól... Svona byrjaði Kötturinn með höttinn og þessi setning á svo sannarlega vel við þessa dagana því það er bara syndaflóð alla daga. Ekki að það sé að fara neitt svakalega í mig finnst það verst út af krökkunum en bara kósý heima á kvöldin þegar við Ingó erum búin að kveikja á kertum út um allt uppi í sjónvarpsholinu og búin að koma okkur vel fyrir. Maður finnur að vetur er að nálgast og í fyrsta skipti í langan tíma leggst það bara vel í mig. Þó svo það sé erfitt að vakna í myrkrinu þá er svo notalegt að koma heim í rólegheit og að vissu leyti slappar maður bara vel af.

Helgin er að nálgast og það er árshátíð hjá Kvosinni sem á Gutenberg. Ætla að skella mér því Ingó kemst með mér hefði ekki nennt að fara ein. Get ekki sagt að það sé sama stemningin fyrir þessari árshátíð eins og þeim sem ég hef verið að fara á hjá Icelandair. Vantar að hafa stelpurnar til að tala um kjóla, förðun og hár en þetta verður gaman. Því miður er Ingó búin að bóka sig með Inga Val á Amsterdam bæði föstudagskvöld og laugardagskvöld. Þeir byrja ekki að spila fyrr en kannski bara 2 leytið og eru svo þar fram á morgun. Ekki alveg uppáhaldsstaðurinn minn.Hann er svo líka að spila á árshátíð á Nordica svo laugardagurinn verður ansi strembinn hjá honum. Ég nenni nú ekki með honum á föstudaginn en kannski ég sæki hann þegar hann er búinn að spila. Ég var búin að sjá fyrir mér kósý kvöld á föstudaginn en við bara verðum að gera það besta úr þessu jákvæðni út í gegn....

Hef ekki enn komið mér í að setja Amsterdam myndirnar inn en það hlýtur að koma að því. Kannski ég skelli mér í Laugar á eftir maður verður að halda áfram að ná kg af sér....

Mynd tekin í Cairo í apríl af okkur erum við ekki sæt saman :-)

Tuesday, October 2, 2007

Tvær stjörnur

Rólegt í dag, úti er rigning eins og flesta hina dagana en maður er bara farin að venjast því. Við Ingó fórum í ræktina í gær og tókum efri hluta líkamans. Ég er nú eins og aumingi við hliðina á honum því hann tekur svo rosalega á því og mér finnst ég bara vera í einhverju dútli þarna með honum. En nei nei ég tek líka vel á því og er að berjast við að minnka þennan maga. Tek það á 8 vikna áætlun og hlakka til að sjá í lok nov hver árangurinn verður orðinn þá.

Krakkarnir eru bara hressir áttu frí í skólanum í gær því það voru starfsdagar hjá þeim. Úlfur var hjá Sellu og undi sér vel og svo kom Ormar vinur hans og hitti hann. Guðný gisti hjá Jasmín og þær dunduðu sér saman. Hún er reyndar að drepast í hnjánum þar sem henni tókst á steypast á hausinn í fyrradag og skrapa á sér hnéskeljarnar og hendina. Gengur um með stóra plástra. Ásta var heima í gær og svaf út eins og unglingi sæmir og var svo að læra í gærkvöldi.

Fréttir jú Jóhanna og Garðar áttu stelpu núna í gær til lukku með það. Malla og Össi að fara til Þýskalands á afmæli Möllu væri til í að skreppa þangað sjálf.

Læt hér í lokinn fylgja með texta sem Megast skrifaði og söng á sínum tíma en ég hef verið að uppgötva í fluttningi Ragnheiðar Gröndal sem mér þykir ansi skemmtileg söngkona. Lagið við þetta ljóð er líka alveg frábært en ekki hef ég gaman af því að hluta á hann Megast flytja það en það er enginn sem segir annað en að textinn er snilld.

TVÆR STJÖRNUR

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hver hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
Því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðin.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
auglínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttinni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festinguni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.

Monday, October 1, 2007

Helgin liðin, rignin en sól í hjarta

Við Ingó á tónleikum Police í Amsterdam

Búin að vera svo löt að blogga núna en lofa að bæta úr því. Hef ekki gefið mér tíma til að setja inn myndir eða neitt svo ég verð að fara að drífa í því. Vikan er búin að vera góð búin að vera mest heima með manninum mínum og börnunum mínum og hafa það huggulegt. Yndisleg helgi liðin við Ingó sátum heima á föstudagskvöldinu og drukkum hvítvín og bjór við kertaljós og horfðum á fullt af tónnleikum á dvd sem hann á. Hann er búinn að vera að safna þessu í nokkurn tíma en ekki hef ég nú gefið mér tíma til að horfa á þetta með honum. Svo við fórum í það að horfa á þetta saman og ég skemmti mér konunglega. Úti var leiðindaverður og dimmt en inni var hlýtt og notalegt, elska kertaljósa árstíðina okkar hér á Íslandi og ekki spillti félagsskapurinn fyrir.

Nú á laugardaginn var sofið út og svo fórum við í kaffi til Lindu og Ása kl 3. Linda elsku vinkonan mín var nefnilega á förum til Cambridge í 8 vikna lærdómstörn og hóaði því í okkur í kveðjukaffi. Lóla mætti líka hress og kát. Ingó gat ekki stoppað lengi þar sem hann var að fara að stilla upp fyrir ball í Fylkisheimilinu og fór Úlfur með honum. Við Lóla sátum hins vegar góða stund og spjölluðum við þau hjónin. Nú svo fóru Úlfur og Guðný til ömmu Sellu og gistu þar en Ásta varð eftir hjá Auði og passaði Björk með henni þar sem Linda og Ási fóru saman út að borða. Linda hafðu það gott úti mun sakna þín og hlakka til að fá þig heim sem fyrst.

Nú ég skellti mér með Ingó á ballið og dró Lólu með mér enda er hún single hehe sorry og um að gera að leita í röðum íþróttamanna að maka handa henni. Ekki fundum við nú mann en sáum einn svaka sætan skota í skotapilis sem þó líklega var frátekinn. Við Lóla skemmtum okkur vel ég var reyndar á bíl en það var bara fínt. Við sátum með Ingó og strákunum áður en þeir fóru að spila og líka í pásunni algjörar grúpppíur en ég má :-) Gott var að koma heim og hafa húsið ein útaf fyrir okkur og geta kúrt og sofið út næsta dag.

Kíktum svo á tengdó í gær þegar við náðum í krakkana. Hún er miklu hressari sem betur fer og þetta bara vonandi allt á uppleið. Svo skelltum við hjónin (næstum því hjón hehe) í ræktina. Ingó búinn að vera rosalega duglegur og ég er að reyna að vera það líka og viti menn búin að missa um 5 kg svo þetta er allt á réttri leið!

Annars langar mig að segja að það er gaman að lesa comment á blogginu mínu ýmsir sem hafa ekki kvittað fyrr en eins og Arnhildur frænka, Auður Kjartans úr Mývatnssveit og systir mín í Þýskalandi og svo þið öll hin. Rosalega er gaman að heyra frá ykkur öllum.

Sendi mínar bestu kveðjur héðan úr rigningunni til ykkar allra og munið að kyssa og knúsa alla sem ykkur þykir vænt um alla daga og nógu oft og gleyma aldrei að sumt skiptir meira máli í lífinu en annað og lífið sem þið lifið er ekkert sjálfgefið það þarf að hlúa að og ditta að.