Sunday, October 14, 2007

Viðburðarrík helgi

Enn ein helgin liðin og nóg um að vera. Pabbi og mamma komu á föstudagskvöldið og við Ingó sóttum þau til Keflavíkur. Pabbi slappur í maga og dauðfeginn að vera komin heim. Á heimleiðinni sáum við bílslys og síðar kom í ljós að þetta voru Heiður vinkona Ástu og Gréta mamma hennar. Hvorug slösuð alvarlega en maður að taka framúr klessti á þær. Svona er liðið hræðilegt í umferðinni. Nú á laugardaginn fór ég í Bónus með pabba og svo fórum við Ingó með þau litlu í sund. Kl hálf 7 vorum við hjónin svo mætt niður í Iðnó í mat með Vidda greifa og Hugrúnu og sáum svo sýninguna Pabbinn. Það var bara mjög skemmtilegt og við áttum huggulegt kvöld með þeim. Eftir leikhús kíktum við aðeins á Borgina á Silfrið og fengum okkur einn drykk þar. Svo brunuðum við Ingó út í Kópavog í sal þar sem Sella var í 50 ára afmæli bróðursonar síns. Við settumst þar inn og sátum góða stund og svo keyrðum við Sellu heim og þá fórum við í Ölver. Hann Ingó minn hefur gaman af að syngja svo þetta var staðurinn. Þar var svaka afmæli í gangi allir í búningum og t.d. mætti Björn Jörundur (systir hans átti afmælið) og söng Whitney Houston lagið I wanna dance with somebody... frekar fyndið enda réði hann ekki lagavalinu. Nú stoppuðum ekki lengi þarna og vorum komin heim um hálf 3. En þetta kvöld átti eftir að enda á ótrúlegan hátt. Og kemur hér sagan af Ingó og hjólinu.

Um hálf 5 vorum við á leið í háttinn þegar mér verður litið út um gluggann í risinu og sé mann á hjóli og annan gangandi. Ég sá að sá sem labbaði var að kíkja inn í bíla sem stóðu á planinu og datt því í huga að kannski ætluðu þeir að ræna einhverju ef þeir gætu. Ég æddi inn á baðherbergi til Ingó og við opnuðum gluggann og þá sér Ingó þennan sem var gangandi koma inn í garð til okkar og taka eitt af hjólunum okkar og hjóla í burtu. Ég gargaði á eftir þeim en þeir bara hjóluðu í burtu. Nú minn maður var ekki lengi að skella sér í gallabuxur og jakka og hlaupa út. Ég beið inni hálfnakin svo ég gat ekki hlaupið á eftir honum. Nú eftir c.a. 4-5 mín þegar Ingó var ekki kominn til baka var mér ekki farið að lítast á blikuna og dreif mig upp í buxur og bol og hljóp út. Þegar ég kom út var Ingó á bak og burt og ég fór nú að panikera. Ég hljóp út að apótekinu á horninu kallandi á hann, en hann var bara horfinn. Ég fór inn aftur fann símann minn og tók bíllykla pabba og út í bíl. Og svo keyrði ég um göturnar kallandi og gargandi á Ingó en bara sá hann hvergi og var orðin svo hrædd að ég hélt ég myndi bilast. Strákarnir í kjallaranum sátu úti og lofuðu að hringja í mig ef Ingó kæmi heim. Nú á Hraunteignum sá ég 2 menn í sendiferðabíl og ég renndi upp að þeim og spurði þá hvort þeir hefðu séð manninn minn sem þeir höfðu ekki og eftir að hafa sagt þeim að hann hefði farið á eftir þjófunum ráðlögðu þeir mér að hringja á lögguna sem og ég gerði. Löggan sagði mér að fara heim og bíða eftir þeim þar og ég gerði það. Nú var ég orðin svo rosalega hrædd að ég var að missa mig. Úti var kolniðamyrkur og ég sá fyrir mér að þessir gæjar hefðu bara ráðist á hann og dregið hann niður í Laugardal og væru að misþyrma honum. Ekki nema von að maður hugsi svona þar sem um síðustu helgi var ráðist á menn rétt hér hjá okkur. Löggan var komin innan 5 mín og það 2 löggubílar. Annar bíllinn fór strax að leita eftir að hafa fengið lýsingu hjá mér en hinir komu út að tala við mig. Önnur löggan tók utan um mig og reyndi að róa mig enda var ég bara í hysteríukasti. Þeir tóku gsm hjá mér og lofuðu að hringja um leið og þeir fyndu hann sögðu mér að vera róleg þetta væri örugglega allt í lagi og létu mig lofa að hringja ef hann kæmi heim. Ég fór inn alveg að tryllast og beið og beið eftir að heyra frá þeim það liðu sem betur fer ekki nema um 5 mín þar til það var hringt og mér sagt að hann væri fundinn. Og þá bara brast ég í grát ég fékk svo að tala við hann og ég grét bara og grét. Hann var þá á Kirkjuteignum að koma með hjólin og ég hljóp út að taka á móti honum og bara missti mig þegar hann kom heim og gat bara ekki hætt að gráta. Um leið og hann kom að húsinu komu strákarnir í kjallaranum keyrandi þeir höfðu þá líka farið að leita að honum þessar elskur. Ég ætlaði aldrei að ná mér niður eftir þetta en mikið var ég fegin að fá elsku ástina mína heila á húfi heim. Þetta voru verstu 40mín sem ég hef lifað.

En svona er sagan hans Ingó. Hann hljóp niður Kirkjuteiginn og að pylsuvagninu við sundlaugina þá sá hann þá á leið upp að Laugarásnum. Þá skokkaði hann á eftir þeim,ætlaði bara að elta þá þar til þeir myndu leggja hjólin frá sér. Var ekkert að nálgast þá of mikið en hafði þá alltaf í sigtinu. Þeir teymdu hjólin upp að þar sem Krónan var (hjá Norðurbrúninni) og þar fóru þeir á þau aftur. Svo beygðu þeir niður hjá Krónunni og þá hljóp hann á eftir þeim. Þeir fóru alveg niður að botninum á Norðurbrúninni og úr augnsýn og þá hjóp hann á eftir þeim og náði þeim þar sem þeir voru að teyma hjólin niður tröppur og þar náði hann þeim og heimtaði hjólin á ensku því þetta voru útlendingar. Hann þurfti aðeins að toga í hjólin og hálsmenið hans slitnaði en þeir gáfust fljótlega upp og hlupu í burtu. Ingó tók svo bæði hjólin og teymdi þau heim. Reyndar er annað hjólið ekki okkar heldur líklegt að þeir hafi stolið því á öðrum stað.

S.s maðurinn minn hljóp hinu meginn í Laugardalinn á eftir þessum mönnum og var ekki lengi að. úff og púff vil aldrei upplifa svona aftur nokkuð sama um einhver hjól en ekki um hann. Tók okkur klst að ná okkur bara niður eftir þetta allt og til að byrja með þá bara grét ég og hló til skiptist.

Svona var nú nóttin sú en ég þakka löggunni skjót viðbrögð og þakka Guði fyrir að fá ástina mína heila á húfi heim.

14 comments:

Anonymous said...

Þvílík saga, maður er að reyna að ímynda sér þetta en ég held ég geti það bara ekki, fæ þetta allt í æð hjá Siggu Dís í næstu viku:-)Ingó er hetja að mínu mati, you go boy!!!
Knús Heiðrún
ps. segi þér smá fréttir á msn á morgun..... he he

Kristín E. said...

Alveg galinn maðurinn þinn að æða á eftir þessum mönnum... en auðvitað hetja að ná hjólunum :þ

Anonymous said...

VÁ þetta var engin smá dramatík hjá ykkur hjónunum.Gott að allt endaði vel:-)

Anonymous said...

úpps..gleymdi að kvitta hér fyrir ofan.

kv.Gyða

Unknown said...

Sæl elsku Þórdís mín.
Það vantar aldrei lífið og fjörið hjá þér en hins vegar hefði mátt sleppa því síðasta.
Þökkum bara fyrir að þetta fór þó svona vel.
Hlakka mikið til að heyra frá þér.
Áslaug Brynjusystir

Anonymous said...

úff púff, ég gæti hugsað mér eitthvað skemmtilegra svona á nóttunni, en Ingó er að standa sig eins og hetja að skokka svona spæjaralegur á eftir þjófunum og stökkva svo á þá á hárréttu augnabliki - gott að allt endaði vel!
Mín helgi var ósköp róleg, bíó á Ratatouille með krökkunum, sukkfæði út í gegn og svo setið hjá mömmu á spítalanum. Heyrumst.

Thordisa said...

Já þetta var ekki eitthvað sem ég vil lenda í aftur :-) en allt er gott sem endar vel.

Unknown said...

Jeminn ég var bara komin með tár í augun af lestrinum! (gæti líka hafa verið brjóstamjólk að pressast upp, þarf að tékka betur) en ekkert smáræði! mér þykir hann líka hugrakkur að leggja í þá, maður veit aldrei hvurslags klikkhausar eru þarna úti..
Datt í hug af því þú kommentaðir hjá Auði með nálahræðsluna, gleymi því ekki þegar við áttum að fara í blóðprufuna í 6. bekk, manstu? það eina sem hindraði þig (og varla samt) í að hlaupa út um allan skútustaðaskóla á naríunum einum saman var að strákarnir biðu fyrir utan stofuna :)

Knúskveðjur frá Egils :)

Thordisa said...

já nálahræðslan ég man þetta sko enn þá hehe

Anonymous said...

Það er aldrei lognmolla í kringum þig Þórdís mín. Þetta er nú samt heldur mikið fjör. Gott að þetta voru ekki einhverjir klikkhausar sem réðust á Ingó.
Lóla

Anonymous said...

Þetta er eitthvað sem ég gæti lent í, ég rík alltaf af stað og hugsa eftir á..... en gott að hann náði hjólunum og hlaut engan skaða af (fyrir utan strengi, tihi).

Anonymous said...

Jahérnahér. Gott að allt fór vel að lokum.

Bestu kveðjur, HjP

Anonymous said...

Eins gott ad thetta endadi vel, og gott hjá Ingó :)
Skil mjög vel ad thú hafir verid hraedd, thad hefdi ég verid!
Puss och kram frá Sverige!

Anonymous said...

omg það er ekkert annað, þetta er ótrúlegt. Hetjuskapurinn í honum Ingó líka :) en allt er gott sem endar vel :) mér finnst líka ansi magnað hvað þið gerðuð mikið á þessu laugardagskvöldi!!